Erlent

Við­brögð Hamas við vopna­hlés­til­lögunum „nei­kvæð“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ísraelskir hermenn á svæði þar sem flutningabifreiðar sæta skoðun áður en þær fá að fara inn á Gasa með neyðargögn.
Ísraelskir hermenn á svæði þar sem flutningabifreiðar sæta skoðun áður en þær fá að fara inn á Gasa með neyðargögn. AP/Ohad Zwigenberg

Háttsettur embættismaður innan Hamas sagði í samtali við AFP í nótt að viðbrögð samtakanna við þeim vopnahléstillögum sem nú lægju fyrir væru „neikvæð“ en viðræður stæðu enn yfir.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafði áður lýst tillögunum sem afar sanngjörnum af hálfu Ísraelsmanna og hvatt Hamas til að ganga að þeim hið fyrsta.

Suhail al-Hindi sagði við AFP að það væri enn markmið Hamas að binda enda á yfirstandandi átök en samtökin eru sögð krefjast algjörs brotthvarfs Ísraelshers frá Gasa. Endurreisn hæfist í kjölfarið, þar sem samtökin myndu skuldbinda sig til að reisa enga hernaðarinnviði.

Hugmyndir Hamas eru langt frá því að ríma við fyrirætlanir stjórnvalda í Ísrael, sem hyggjast enn gera áhlaup á Rafah, óháð því hvort samið verður um vopnahlé í einhvern tíma. Að sögn þeirra dvelja leiðtogar Hamas og fjórar herdeildir í Rafah, sem stefnt er að því að útrýma.

Að sögn Hindi, sem ræddi við blaðamenn AFP í síma, vilja Hamas og aðrar andspyrnuhreyfingar sjá endalok yfirstandandi átaka en ekki hvað sem það kostaði. Samtökin myndu ekki undir neinum kringumstæðum „veifa hvítum fána“ eða gangast undir skilmála óvinarins.

Sameh Shoukry, utanríkisráðherra Egyptalands, hvatti í gær alla aðila til að sýna sveigjanleika til að ná fram samkomulagi um að binda enda á blóðsúthellingarnar á Gasa. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×